Aðalstræti 16

Á lóðum Aðalstrætis 10, 14 og 16 stóðu  fyrstu hús Innréttinganna. Árið 1764 brann hluti þeirra húsa en voru aftur reist ári síðar og á lóð Aðalstrætis 16 var lóskurðarstofa til húsa fyrst um sinn. Árið 1791 keypti Maddama Margrethe Angel húsið og rak þar veitingasölu til ársins 1796 þegar danska stjórnin keypti húsið fyrir landfógetabústað. Bjuggu þrír landfógetar í húsinu hver á fætur öðrum ásamt starfsfólki sínu. Húsið var við skoðun árið 1813 talið í hörmulegu ástandi og árið 1828 var Landfógetabústaðurinn fluttur að Aðalstræti 9. Á árunum 1831-1848 var fyrsti Barnaskólinn í Reykjavík starfræktur í húsinu en það var þá orðið mjög lélegt og var vesturhluti þess rifinn.

Um miðja nítjándu öld eignaðist Jón Guðmundsson, ritstjóri Þjóðólfs, húsið og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni. Þau létu bæta húsið mikið og byggt var aftur við vesturenda þess. Heimili þeirra var eitt helsta  menningarheimili bæjarins á þessum tíma. Hans Andersen klæðskeri eignaðist húsið 1889 þar sem hann bjó og rak klæðskeraverslun sína. Húsinu var bæði breytt og byggt við það á þeim tíma og eftir aldamótin var húsið orðið þrílyft og búið að byggja tvílyft hús vestan við það. Við þessar breytingar fékk húsið þau stíleinkenni sem haldist hafa að mestu óbreytt síðan og gefa húsinu það útlit og yfirbragð sem það nú hefur.

Árið 1997 gerðu Reykjavíkurborg og Minjavernd með sér samstarfssamning um deiliskipulag reitsins Aðalstræti 10-18 og Túngötu 2-4. Markmiðið var að byggð við Aðalstræti fengi heillegt yfirbragð og gæti jafnframt endurspeglað sögu borgarinnar frá upphafi byggðar í Reykjavík til okkar daga. Minjavernd ásamt félaginu Þyrpingu stofnuðu félagið Innréttingarnar sem stóð að endurbyggingu hússins og nýbygginga í kringum það. Framkvæmdun var lokið á vormánuðum 2005. Þar er nú Hótel Reykjavík Centrum og í kjallara þess er Landnámsskálinn sem reistur var yfir rúst landnámsskála sem fannst við fornleifagröft við framkvæmdirnar. Starfsmenn Gamlhúss ehf. og Minjaverndar hf. unnu að endurbyggingu gamla hússins, en ÍAV annaðist nýbyggingarhluta. ARGOS ehf, Arkitektastofa Grétars og Stefáns ásamt VA arkitektum voru aðalhönnuðir húsanna og Verkís hf. annaðist verkfræðiþætti.

 Myndir