Sæluhús Hveravöllum

Sæluhúsið á Hveravöllum 

Sæluhúsið á Hveravöllum var reist að tilstuðlan og kostað af Hinu íslenska fjallvegafélagi síðsumars 1922. Á árunum frá 1920 til 1922 var flokkur manna sendur af vegamálastjóra á hverju sumri til að ryðja og varða fjallvegi. Verkstjóri flokksins var Halldór Jónasson frá Hrauntúni. Sumarið 1922 vann flokkurinn við leiðina að Mælifellsdal og að Blöndu. Því verki var lokið í byrjun ágúst og þá farið til Hveravalla og reist sæluhús. Húsið var 8 x 5 álnir, hlaðið úr torfi og grjóti, sett járnklætt þak yfir og torf á. Efniviður, þ.e. járn og timbur var flutt á hestum frá Starrastöðum í Skagafirði og tók framkvæmdin um þrjár vikur.

Árið 1990 barst Minjavernd erindi frá Náttúruverndarráði um hvort félagið gæti tekið að sér endurreisn sæluhúsa, m.a. í Landmannalaugum og á Hveravöllum. Minjavernd ákvað að ráðast til þess og viðgerð sæluhússins á Hveravöllum hófst 1993. Vegghleðslur voru allar úr lagi gengnar og þak lélegt orðið. Veggir voru endurhlaðnir, þakviðir endurnýjaðir eftir þörfum, járnað á ný og klætt torfi. Minjavernd hafði alla umsjón með höndum og annaðist smíðavinnu, en jafnframt kom til aðstoð sjálfboðaliða. Fjallasjóður kostaði meginhluta framkvæmdarinnar. Verkinu var lokið með smærri frágangi 1996 og var unnið í samráði við Náttúruverndarráð.

Heimildir: Litbrigði húsanna eftir Guðjón Friðriksson.

Myndir