Sólfell við Ægisgarð 2

Húsið Sólfell var reist á Kirkjusandi  árið 1921 af Th. Thorsteinssyni fiskverkanda. Það var þá stærst saltfiskvinnsluhúsa sem þar stóðu og á sinn hátt það tæknivæddasta. Saltfiskvinnsla var þá stór atvinnuvegur hér sem kunnugt er og mikil verðmæti fóru um þau hús sem til þeirrar vinnslu voru notuð. Eftir standa nú einungis tvö slík hús í Reykjavík, Sólfell og hús Alliance við Ánanaust.

Eftir að saltfiskvinnsla lagðist af á Kirkjusandi var húsið notað fyrir bifreiðaviðgerðir og sem geymsla. Undir lokin  notuðu Strætisvarnar Reykjavíkur húsið um langt árabil. Árið 2007 stóð til að byggja höfuðstöðvar Glitnis á Kirkjusandi og Reykjavíkurborg seldi lóð SVR fyrir þær byggingar. Sólfell var þá fyrir  þeim áformum og þurfti að víkja. Minjavernd hvatti Glitni til að nýta sér húsið á staðnum fyrir móttökuhús  t.d., en á því var ekki talinn kostur og tekin var ákvörðun um að rífa það. Minjavernd samdi þá við Reykjavíkurborg um að taka húsið yfir og var það gert á haustmánuðum 2007. Viðbygging við það var tekin niður, en húsið sjálft flutt til geymslu.

Á vormánuðum 2010 var farið að huga að framtíðarstaðsetningu fyrir húsið og þótti mikilvægt að það stæði nálægt sjó. Minjavernd leitaði til Faxaflóahafna um staðsetningu og var vel tekið. Í góðu samstarfi við það heiðursfólk sem þar starfar var húsinu fundinn staður og útbúin lóð sem heitir nú Ægisgarður 2. Húsið var flutt á sinn framtíðarstað á vorið 2011 en unnið hafði þá verið að viðgerðum þess vestan Slippsins frá því haustið 2010. Starfsemi hófst síðan í húsinu á haustmánuðum 2011.

Við endurgerð hússins var lögð áhersla á að fyrra yfirbragð þess héldi sér að því marki sem kostur var. Þannig eru gluggar þess í dag sams konar og áður voru, panell á veggjum inni var endurnýttur og innra burðarvirki endurgert. Komið var fyrir millipalli í  gamla húsinu, og reist nýbygging við norðurhlið þess, sem hefur sama form og sú viðbygging sem áður stóð við þá sömu hlið. Í húsinu er nú rekinn veitingastaðurinn Tapashúsið. Starfsmenn Minjaverndar unnu stærstan hluta endurgerðar hússins. ARGOS ehf., Arkitektastofa Grétars og Stefáns voru aðalhönnuðir að því, en Verkfræðiþjónusta Hjalta, VJI og Víðsjá önnuðust verkfræðiþætti.

Myndir