Minjavernd hf. var stofnuð 28. apríl 2000. Félagið var reist á grunni starfs sjálfseignarstofnunarinnar Minjaverndar sem stofnuð var í apríl 1984, en hún byggði grunn sinn á því starfi sem Torfusamtökin stóðu fyrir á Bernhöftstorfu frá nóvember 1979.
Á þessu árabili hefur félagið því tekið formbreytingum og starfsemi þróast með breyttum tíðaranda og fjölda og stærð viðfangsefna sem félagið hefur tekið að sér. Í stofnsamþykktum segir, “tilgangur félagsins er að stuðla að varðveislu mannvirkja og mannvistarleifa hvarvetna á Íslandi í víðtækasta skilningi”. Í reynd hefur aðalverksvið félagsins falist í að stuðla að og standa fyrir endurbyggingu gamalla húsa. Verkefni félagsins til þessa eru komin á 8. tug, bæði innan Reykjavíkur sem á landsbyggð.
Eigendur Minjaverndar eru ríkissjóður með 38.27 % eignarhlut, Reykjavíkurborg með 38.27 % eignarhlut og sjálfseignarstofnunin Minjar með 23.46 % eignarhlut. Um rekstur Minja er haldið af fulltrúaráði sem skipað er 16 einstaklingum. Stjórn Minjaverndar er skipuð 5 einstaklingum, 2 af hálfu ríkis, 2 af hálfu Reykjavíkurborgar og 1 af hálfu Minja. Minjavernd hefur aldrei verið á fjárhagslegu framfæri hvorki Reykjavíkurborgar eða ríkis og er beinlínis ætlað að standa á eigin fótum í sínum rekstri. Félagið hefur hins vegar átt árangursríkt samstarf við ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélög, ýmsar stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga og byggir því á margháttaðri reynslu, bæði hvað verkefni snertir sem og samstarf við aðra aðila.
Á heimasíðu má finna ársskýrslur stjórnar Minjaverndar sem innihalda niðurstöðutölur ársreikninga. Í skýrslum greinir í stuttu máli frá helstu viðfangsefnum félagsins á hverjum tíma. Umfangsmestu verkefni Minjaverndar í Reykjavík hafa verið endurbygging Bernhöftstorfu og uppbygging við Aðalstræti, en á landsbyggð er endurgerð Franska spítalans ásamt Læknishúsi, Sjúkraskýli og Kapellu langviðamest, enda stærsta verkefni á sviði endurbyggingar húsa á Íslandi. Fyrir það verkefni fékk Minjavernd verðlaun, European Union Prize for Cultural Heritage / Europa Nostra Avards 2016.