Langabúð Djúpavogi

Langabúð á Djúpavogi.

Byggingarsögu og efnivið Löngubúðar má rekja allt til daga dönsku einokunarverslunarinnar. Efniviður hússins er að hluta til úr tveim húsum, pakkhúsi og sláturhúsi sem byggð voru 1764 og 1779. Sláturhúsið var endurbyggt 1849 og pakkhúsið 1852. Þau hús sem og hin fyrri stóðu í línu og jafn breið. Húsin voru síðar tengd saman og mynda því nú æði langt hús sem ber nafn með rentu, er 40 metrar á lengd og 8 metrar á breidd.

Skömmu eftir að verslun var gefin frjáls 1787 keypti danskur kaupmaður, Jens Lassen Busch, staðinn og rak verslun þar til 1822. Skömmu eftir 1800 kom til Djúpavogs ungur maður Hans Jónatan að nafni og gerðist starfsmaður verslunarinnar. Hann var ættaður frá Vestur-Indíum og dökkur yfirlitum. Hans Jónatan gerðist verslunarstjóri 1818, gegndi því starfi um allmörg ár og eignaðist íslenska konu. Ævi hans var merkileg og er henni gerð góð skil í bók eftir Gísla Pálsson.

Örum & Wulf tóku við versluninni eftir Busch. Þeir voru mjög umsvifamiklir í verslun á Norður- og Austurlandi til ársins 1918 en þá var félagið lagt niður. Kaupfélag Berufjarðar keypti verslunarhús félagsins er það hætti rekstri og rak þar m.a. sláturhús, byggingarvöruverslun og trésmíðaverkstæði til ársins 1985. Eftir það var húsið einkum nýtt sem geymsla. Um 1950 voru gerðar töluverðar breytingar á húsinu, gólf neðri hæðar rifið, lækkað og steypt, skipt um glugga og húsið múrhúðað að utan. Við það breyttist ásýnd þess mjög til hins verra.

Árið 1975 hófst umræða um varðveislu og endurbyggingu hússins. Hjörleifur Stefánsson arkitekt mældi það upp og teiknaði 1976 og það var svo friðað 1979. Friðunarfélag Löngubúðar var stofnað 1984 og fékk styrki til endurbyggingar, en lítið hreyfðist í framkvæmdum. Árið 1987 ákvað stjórn Minjaverndar að taka að sér umsjón með verkinu m.a. að beiðni Þjóðminjasafns og vinna að öflum fjármagns til þess. Verkefnið var mjög umfangsmikið og þótt fjöldi ferða væri farinn austur og þrátt fyrir aðkomu góðra manna af staðnum var það ekki fyrr en 1989 sem viðgerðum á ytra byrði útveggja hússins var að mestu lokið. Að því var enda stefnt en það ár var haldið upp á 400 ára verslunarafmæli Djúpavogs og við það tækifæri fékk Búlandshreppur húsið að gjöf. Fram til þess hafði Minjavernd lagt framkvæmdum til töluvert fé, en við þau tímamót var um það samið að framhald yrði kostað af Búlandshreppi.

Það var síðan 1994 sem tókst að finna þá lausn sem leiddi til verkaloka endurbyggingar hússins. Dætur Ríkarðs Jónssonar sýndu því áhuga þegar eftir var leitað að afhenda Djúpavogshreppi sem þá var til orðinn allt safn hans. Jafnframt tókst að koma á samningi milli ríkis og Djúpavogshrepps um fjármögnun lokaáfanga endurbyggingarinnar og að koma safninu fyrir. Það var m.a. fyrir tilstuðlan Ólafs G. Einarssonar sem þá var menntamálaráðherra, starfsfólks ráðuneytisins og þingmanna Austurlands. Minjavernd annaðist fyrst um sinn áfram stjórn og utanumhald verksins og var þak hússins t.d. tekið fyrir sumarið og haustið 1994. Árið 1996 var gerður samningur við félagið Gamlhús ehf, sem Minjavernd hafði þá átt frumkvæði að stofnun á og átti stærstan hlut í, um framkvæmd þess og verklok. Hjörleifur Stefánsson arkitekt annaðist forsögn sem fyrr. Auk listasafns Ríkarðs Jónssonar var ákveðið að koma þar fyrir minningarstofu um Eystein Jónsson ráðherra. Sú minningarstofa var opnuð af Ólafi Ragnari Grímssyni þá nýkjörnum forseta Íslands, með viðhöfn 24. október 1996.  Átta mánuðum síðar eða 12. júlí 1997 var húsið síðan allt opnað við formlega viðhöfn af Ólafi G. Einarssyni sem þá var forseti Alþingis. Húsið var þá fullfrágengið ásamt umhverfi þess. Langabúð orðin bæjarprýði og miðpunktur menningarlífs á staðnum.

Djúpavogshreppur kom sér hins vegar undan greiðslu uppgjörs þessa lokaáfanga og bar Minjavernd tuga milljóna kostnað þess.

Heimild: Litbrigði húsanna eftir Guðjón Friðriksson.

Myndir