Ögur í Ísafjarðardjúpi

Ögur í Ísafjarðardjúpi – fyrir heimasíðu.

Gamla íbúarhúsið í Ögri reistu hjónin Jakob Rósinkarsson og Þuríður Ólafsdóttir árið 1885. Þuríður hafði fyrir búið í Ögri með fyrri manni síðnum Hafliða Halldórssyni en hann fell frá ungur. Þau Jakob og Þuríður giftust 1878 og ráku bú sitt af myndarskap. Þau réðust m.a. í túnasléttun, áveitur og reistu vatnsdrifna kornmyllu. Merkja má áhrif frá bændaskólanum í Ólafsdal í þeirra starfi. Húsið var eitt stærsta hús í sveit þess tíma, 18 álnir á lengd og 14 á breidd, þrílyft, mælist í dag 271 fermetar. Yfirsmiður og líklega höfundur þess með þeim hjónum var Einar Bjarnason snikkari, ættaður úr Ögursveit en búsettur á Ísafirði.

Jakob varð skammlífur, andaðist 1894 einungis fertugur að aldri. Þuríður hélt áfram myndarbú í Ögri og varð langlíf, lést öldruð 1921. Dætur þeirra hjóna, Halldóra og Ragnhildur, tóku við búi eftir móður sína og ráku með myndarskap. Meðal annars virkjuðu þær Ögurána til heimilisnota. Þær systur voru báðar barnlausar en ólu upp fjölda barna m.a. Líneik Árnadóttur bróðurdóttur sína. Hún tók við búinu eftir systurnar 1943 ásamt manni sínum Hafliða Ólafssyni. Þau hjón voru síðustu ábúendur í húsinu.

Minjavernd tók við húsinu af Árnessjóði haustið 1985. Börn Hafliða Ólafssonar og Líneikar Árnadóttur höfðu ánafnað sjóðnum húsinu til endurgerðar þess og notkunar. Á vegum sjóðsins var viðgerð hafin á ytra byrði hússins, framhlið og austurgafli. Þeirri viðgerð var þó ekki að fullu lokið er Minjavernd tók við húsinu og lauk Minjavernd við viðgerð þess að utan árin á eftir. Húsið var orðið ákaflega slitið eftir mikla notkun og lítið viðhald um áratuga skeið. Næstu tvö árin eftir yfirtöku Minjaverndar var unnið að viðgerð þess að utan og henni loklið 1987. Þorsteinn Gunnarsson arkitekt hafði haft umsjón með viðgerð hússins í tíð Árnessjóðs, en eftir að Minjavernd tók yfir var það Argos ehf arkitektastofa sem annaðist arkitektavinnu.

Minjavernd var það hugleikið að finna húsinu not áður en viðgerðir hæfust innandyra. Var einna helst talinn valkostur að húsið nýttist sem sumardvalarhús stærri fyrirtækja eða stofnana og var nokkuð víða leitað fanga í því efni næstu árin. Að lokum varð það Landsbankinn sem gekk til kaupsamnings við Minjavernd um húsið fyrir starfsmannafélag sitt. Halldór Guðbjarnason var þá bankastjóri þar á bæ og áhugamaður um húsið. Gengið var frá samningum í mars 1992. Minjavernd bar skv. þeim að ljúka endurgerð efri hæða hússins fyrir tvær sjálfstæðar íbúðir. Var unnið þétt að þeirri framkvæmd og farnar fjölmargar ferðir um sumarið og næsta vetur til að ljúka verkinu. Húsið var afhent Landsbankanum 21. maí 1993.

Heimild:  Litbrigði húsanna eftir Guðjón Friðriksson.

Myndir