Starhagi 1.
Húsið var upphaflega reist fram við götu að Laugavegi 36 árið 1896 af Guðmundi Einarssyni. Hann átti húsið einungis í um tvö ár, því 1898 seldi hann Torfhildi Þ. Hólm rithöfundi húsið. Torfhildur fékk skáldastyrk frá Alþingi á sínum tíma og náði að lifa af ritstörfum, einna fyrst rithöfunda hér á landi. Í húsinu skrifaði hún sínar sögulegu skáldsögur, m.a. um biskupana Jón Vídalín og Brynjólf Sveinsson. Torfhildur gaf einnig út ársritið Draupni og mánaðarblaðið Dvöl.
Bakararnir Guðmundur Ólafsson og Stefán Sandholt voru orðnir eigendur hússins árið 1925 og þeir reisa sína byggingu fram við götu 1936. Fyrir þá framkvæmd var gamla húsið flutt inn á bakhluta lóðarinnar og lyft þar upp á steypta hæð. Þar kúrði það og hýsti lager bakaríisins fram til 2015 en þá hafði verið heimilað að byggja hotel inn á bakhluta lóðarinnar og húsið var fyrir við þá framkvæmd. Það var þá komið í mjög bágborið ástand og hafði ekki verið nýtt um árafjöld.
Reykjavíkurborg og Minjavernd gerðu með sér samkomulag 2015. Minjavernd tók að sér að flytja húsið og endurgera það á lóð sem Reykjavíkurborg skyldi leggja til. Nokkurn tíma tók að finna húsinu framtíðarstað og ljúka skipulagi hluta. Skoðaðar voru staðsetningar í Þingholtum, í Grjótaþorpi og að Seljavegi 1 en árið 2019 var húsinu endanlega varlinn framtíðarstaður að Starhaga 1. Húsinu var við það breytt lítillega og settar við það viðbyggingar við báðar hliðar þess. Aðalhönnuðir voru Argos ehf arkitektastofa. Það var selt á byggingarstigi. Heimild: Guðjón Friðriksson í Litbrigði húsanna.
Myndir