Sæluhús Landmannalaugum

Sæluhúsið í Landmannalaugum 

Elsti gangnamannakofinn í Landmannalaugum er borghlaðinn úr grjóti með torfi yfir. Gunnar Árnason frá Galtalæk hlóð hann árið 1850. Minjavernd barst erindi frá Náttúruverndarráði 1990 með fyrirspurn um hvort félagið gæti gengist fyrir endurgerð sæluhúsa. Félagið ákvað að taka það að sér og var fyrst kannað ástand þessa gamla leitarmannakofa. Hann hafði skriðið til í áranna rás og jafnframt fengið á sig snjóskriðu. Að ráði varð að hlaða hann sem næst upp að nýju. Verkið hófst með könnunarleiðangri í október 1990 og var kofinn síðan sem næst endurhlaðinn árið 1991 og sett torf yfir.

Kofinn stendur í hlíðinni rétt ofan við laugarnar og rennur volgra undir honum svo þar hefur verið hlýtt en að sama skapi rakt inni. Hann er lítill og rúmar einungis þrjá menn svo vel sé. Fjallasjóður greiddi mestan hluta lagfæringa.

Heimild: Litbrigði húsanna eftir Guðjón Friðriksson.

Myndir