Bernhoftstorfan

BernhöftshúsHúsaröðin sem nú er kölluð Bernhöftstorfan er merkur hluti af sögu Reykjavíkur. Elstu húsin, hús bakarísins eða Bankastræti 2 og hús landfógeta við Amtmannsstíg 1 voru reist á þeim tíma þegar Reykjavík var að taka við hlutverki höfuðborgar á fyrri hluta 19. aldar. Húsunum hefur lítið verið breytt frá seinni hluta þeirrar aldar. Elstu húsin eru frá árinu 1832, Bernhöftshús og Gamla bakaríið og Landlæknishús var upphaflega reist 1836. Tvær byggingar í röðinni eru yngri, reistar árið 1905, það er viðbygging sunnan við Amtmannsstíg 1 og steinhúsið Gimli Lækjargötu 3. Turninn við Landlæknishúsið var teiknaður af Rögnvaldi Ólafssyni, er nokkuð sérstakur en með líkum einkennum og fleiri af hans byggingum. Gimli er að mörgu leyti merkilegt hús vegna ýmis konar nýjunga í húsagerð, svo sem járnbent steinsteypuloft. Húsaröðin er jafnframt ekki síður merkileg vegna heilsteypts umhverfis húsanna og sögulegs gildis húsalínummar frá Stjórnarráði og yfir að Laufásvegi. Húsaröðin stendur á brekkubrún fyrir ofan Kvosina og hefur gnæft yfir miðbæ Reykjavíkur með glæsibrag um langan aldur.

Árið 1956 benti Helge Finsen arkitekt á að húsaröðin í brekkunni væri næstum eina ósnerta götumyndin frá fyrri tíð í Reykjavík og væri því vel þess virði að varðveita. Síðar tóku fleiri undir og árið 1970 byrjaði Arkitektafélagið að vekja áhuga á málinu og húsin voru mæld upp. Árið eftir var haldin hugmyndasamkeppni um svæðið og 1972 voru Torfusamtökin stofnuð til að stuðla að uppbyggingu húsanna. Úttekt á ástandi húsanna var gerð 1977 en sum þeirra höfðu brunnið það ár. Árið 1979 var húsaröðin síðan friðuð og Torfusamtökin gerðu leigusamning við fjármála og menntamálaráðherra um yfirtöku samtakanna á húsunum gegn endurreisn þeirra.

Fyrst var ráðist í viðgerðir á Landlæknishúsinu að Amtmannsstíg 1. Það verk hófst þegar 1979 og var starfsemi komin í húsið í júní næsta ár., Síðan var hafist handa við Bernhöftshús að Bankastræti 2 sem nú er þekkt sem Lækjarbrekka. Það verk hófst haustið 1980 og var lokið síðla árs 1981. Árið 1983 hófst smíði við nýbyggingar í stað þeirra húsa sem brunnu 1977 og var hluti þeirra tekin í notkun árið 1984. Síðan varð nokkurt hlé á framkvæmdum en árið 1989 var lokið við framkvæmdir með viðgerð á Gamla bakaríinu, nýbyggingu Kornhlöðunnar og lokaáfanga Móhúsa meðfram Skólstræti og þá var jafnframt reist nýbygging fyrir aftan Gimli sem nefnd hefur verið Suðurálma.

Í húsunum hefur verið starfrækt fjölbreytt starfsemi eftir endurreisn. Sem dæmi má nefna að Sinfóníuhljómsveit Íslands hafði þar skrifstofur auk Listahátíðar Reykjavíkur sem í dag hefur aðsetur í Gimli. Fyrirtæki er starfa að ferðaþjónustu hafa verið þar og upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn verið í nýbyggingum frá 1979. Jafnframt hafa verið þar vinsælir veitingastaðir og ýmis önnur starfsemi.

Hér í viðhengi er hægt að nálgast síður úr bókinni KVOSIN Byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur eftir Guðmund Ingólfsson, Guðnýju Gerði Gunnarsdóttur og Hjörleif Stefánsson.

Myndir