Grjótagata 9.
Magnús Ólafsson trésmiður reisti geymslu og smíðahús á lóðinni Grjótagötu 9 í Reykjavík árið 1884. Ekki er ljóst hvenær því var breytt í íbúðarhús, en 1901 flytur Magnús inn í húsið með konu sinni Kristínu Einarsdóttur og bjó þar til dánardags 1922. Húsið var nokkuð dæmigert fyrir bjargálna fólk á þeim tíma, ein hæð með risi á grjóthlöðnum kjallara. Dyr og tröppur voru fyrir miðri norðurhlið og skúr var byggður við vesturgafl sem nýttur var sem hesthús um tíma. Eftir lát Magnúsar bjó Kristín í húsinu en eftir 1930 eignuðust Guðjón S. Magnússon skósmiður og kona hans Ketilfríður Dagbjartsdóttir það. Guðjón hafði skóvinnustofu í Uppsölum að Aðalstræti 18.
Reykjavíkurborg keypti húsið 1959, líklega til niðurrifs. Reykjavíkurborg keypti á þeim árum fjölda húsa í Grjótaþorpi með niðurrif í huga, en þá voru uppi stórhuga fyrirætlanir um gatnagerð og byggingar. Borgin leigði húsið út en sinnti viðhaldi ekkert og húsið lét verulega á sjá á næstu árum.
Nýtt deiliskipulag var samþykkt fyrir Grjótaþorp 1980 í ljósi nýrra viðhorfa um framtíð þorpsins og í framhaldi fóru eigendur að sinna húsum sínum betur en verið hafði. Reykjavíkurborg seldi Úlfari Þormóðssyni rithöfundi húsið 1982. Í framhaldi gekk það kaupum og sölum og var lítt sinnt á ný, þar til Baugur Group keypti húsið 1906. Baugur hafði áform um að endurbyggja húsið, tengja það húsinu að Túngötu 6 og nýta fyrir höfuðstöðvar sínar. Þau áform náðu ekki fram.
Minjavernd keypti húsið 2007 og hóf viðgerð á því. Fyrirhugað var að hafa í því tvær íbúðir, byggja við inngang að Grjótagötu og kvist til suðurs. Endurgerð hússins var lokið um mitt ár 2008 og var húsið þá selt sem íbúðarhús. Arkitektar að endurgerð voru Argos ehf arkitektastofa.
Heilild: Litbrigði húsanna eftir Guðjón Friðriksson.
Myndir