Ingólfsnaust

Ingólfsnaust að Aðalstræti 2

Lóðin að Aðalstræti 2 er elsta verslunarlóð Reykjavíkur. Húsið var reist 1855 af Robert Peter Tærgesen. Tærgesen kom fyrst til Íslands sem verslunarþjónn  P. C. Knudtzons kaupmanns. Hann giftist íslenskri konu, Önnu Maríu Hansen og hóf sjálfstæðan verslunarrekstur. Tærgesen tók virkan þátt í bæjarmálum, var fyrsti slökkviliðsstjórinn, átti sæti í fyrstu byggingarnefnd bæjarins og sat um tíma í bæjarstjórn.

Húsiða var upphaflega með tvennar dyr til hvors enda framhliðar, klætt listasúð og með skífum á þaki. Tærgesen rak verslun sína á neðri hæð hússins, en bjó á efri hæðinni. Árið 1865 seldi Tærgesen húsið öðrum dönskum kaupmanni, Waldemar Fischer sem einnig hafði komið til Íslands sem verslunardrengur hjá P. C. Knudtzon kaupmanni. Fischer hafði stofnað eigin verslun 1859. Verslum hans varð ein öflugasta verslun í Reykjavík og átti hann fleiri hús, m.a. Bryggjuhúsið við norðurenda Aðalstrætis. Fischer var vel liðinn sem kaupmaður og gaf m.a. fé til  góðra málefna. Bæjarstjórn Reykjavíkur ákvað m.a. af þeirri ástæðu að nefna Fischersund eftir honum.

Fischer lést í Kaupmannahöfn 1888 og tók sonar hans Frederik Crone Fischer þá við versluninni og rak hana til 1904 er verslunin og eignir voru seldar H. P. Duus sem rekið hafði verslun í Keflavík og víðar.

Í tíð verslunar Fischers var framhúsinu breytt, m.a. þann veg að í stað tveggja dyra á framhlið komu einar tvöfaldar á miðju hússins. Á baklóð voru tvö gömul lítil pakkhús fyrir sem urðu fjögur í tíð Fischers ásamt því að byggður var skúr meðfram bakhlið hússins. Fljótlega eftir að Duus kaupir var byggt stórt pakkhús á baklóðinni og það tengt framhúsinu með byggingu meðfram Fischersundi. Þetta pakkhús var síðar stækkað í það horf sem nú er.

H. P. Duus var rekið fram til 1928 er það komst í þrot. Þá voru eignir félagsins við Aðalstræti umtalasverðar, húseignir beggja vegna Fishersunds ásamt Bryggjuhúsinu við norðurenda götunnar. P. L. Mogensen lyfsali keypti húseignirnar að Aðalstræti 2 eftir að Duus hætti rekstri og opnaði lyfjaverslun í framhúsinu. Hún var rekin þar fram til 1954 er hún var flutt í bakhús að Aðalstræti 4 við Fishersund. Veiðarfæraverslunin Geysir var í bakhúsum að Aðalstræti 2 frá 1927 og tók yfir framhúsið 1954 er apótekið flutti út. Þá var húsinu breytt töluvert. Sett var stálgrind á neðri hæð með stórum verslunargluggum og húsið múrhúðað utan.

Reykjavíkurborg keypti síðan húsið 1992 og leigði fyrir sýningar og upplýsingamiðstöð en 1995 flutti Hitt húsið, menningar og félagsmiðstöð ungs fólks, inn í öll húsin. Endurbætur hófust síðan á framhúsinu 1999. Fyrst voru þær á vegum Reykjavíkurborgar, en Minjavernd tók við húsinu til eignar árið 2000. Minjavernd stóð síðan fyrir endurbyggingu húsanna allra sem lauk í ársbyrjun 2004. Arkitekt að þeim endurbótum var Hjörleifur Stefánsson. Húsunum hefur mjög lítið verið breytt frá því horfi. Að þeirri endurgerð lokinni hóf fjölbreytt starfsemi rekstur í húsunum, upplýsingamiðstöð, veitingastaðir, verslanir og skrifstofur. Minjavernd seldi húsið til Stoða fasteignafélags 2005, en Reitir eiga það í dag.

Heimild:  Litbrigði húsanna eftir Guðjón Friðriksson.

Myndir