Fógetahús - Aðalstræti 10

Aðalstræti 10 er reist árið 1762 og er elsta hús á föstu landi Reykjavíkur. Húsið er bindingshús eða grindarhús með múrsteini og að hluta holtagrjóti hlöðnu í grind. Það var upphaflega reist undir bókara Innréttinganna og klæðageymslu. Síðar var þar íbúð undirforstjóra Innréttinganna. Um aldamótin 1800 keypti Westy Petræus kaupmaður húsið ásamt öðrum eignum Innréttinganna en síðar, eða árið 1807 eignaðist Geir Vídalín biskaup frá Skálholti húsið og þá var það lengi kallað biskaupsstofa.

Margir aðrir merkir menn bjuggu í húsinu og þar á meðal má nefna Jens Sigurðsson rektor lærða skólans og bróður hans Jón Sigurðsson forseta. Jón hafði aðsetur í tveim herbergjum í sunnanverðu húsinu þegar hann var í Reykjavík yfir sumartímann ásamt frú Ingibjörgu.

Árið 1895 keypti Helgi Zoega kaupmaður húsið og rak þar verslun. Síðan ráku Silli og Valdi verslun í húsinu í rúma hálfa öld fram að því að veitingastaðurinn Fógetinn tók við.

Minjavernd tók við húsinu árið 2005 og þá var það í mjög slæmu ástandi. Endurbygging þess var í umsjá Minjaverndar og í maí árið 2007 var húsið opnað eftir endurbyggingu.  Starfsmenn Minjaverndar unnu stærstan hluta vinnu við endurgerð hússins sem og nýbyggingu fyrir aftan það, ARGOS ehf., Arkitektastofa Grétars og Stefáns voru aðalhönnuður að húsinu, en Verkfræðiþjónusta Hjalta, Efla, VJI og Víðsjá sinntu verkfræðiþáttum.

Aðalstræti 10 er nú í eigu Reykjavíkurborgar.

 Myndir